Viðbragðsáætlun við einelti

Forvarnir gegn einelti

Til þess að fyrirbyggja einelti þarf samstillt átak og ábyrgð nemenda, forráðamanna og starfsmanna skólans. Miðlun góðra lífsgilda, regluleg fræðsla og umræðum um eineltismál og afleiðingar þeirra eru nauðsynlegar. Allir þurfa að deila ábyrgð, sýna virðingu og láta sig líðan annarra varða. Einkunnarorð skólans eru „Skólinn á að skapa góðar minningar“ . Til þess að svo megi verða þarf öllum að líða vel á meðan á skóladvölinni stendur. Skólinn leggur mikið upp úr góðri líðan bæði nemenda og starfsfólks.

Skilgreining á einelti:

Einelti er endurtekið ofbeldi, líkamlegt og/eða andlegt, þar sem einn eða fleiri níðast á einum, sem á erfitt með að verjast. Einelti felur í sér misbeitingu á valdi með þeim afleiðingum að þolanda líður illa og hann finnur til varnarleysis.

Gerendur eineltis leggja oft mikið á sig til að einelti sjáist ekki eða að fullorðnir verði vitni að því. Oft taka hinir fullorðnu ekki eftir neinu. Einelti gerist oftast þar sem enginn sér. Sá sem er lagður í einelti vill oft ekki segja frá því sem gerist svo hann hljóti ekki verra af. Þess vegna er mjög áríðandi að allir þekki einkenni eineltis.

Einelti getur birst í mörgum myndum:

 • Líkamlegt: t.d.barsmíðar, spörk og hrindingar.
 • Munnlegt: t.d. uppnefni, niðrandi athugasemdir og endurtekin stríðni.
 • Skriflegt: t.d. neikvæð tölvu- og símasamskipti, krot og bréfasendingar.
 • Óbeint: t.d. baktal, útskúfun, útilokun úr félagahópi ,svipbrigði og viðmót.
 • Efnislegt: t.d eigum barns stolið eða þær eyðilagðar.
 • Andlegt: t.d að barn er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir gegn réttlætiskennd þess og sjálfsvirðingu, barn verður fyrir hunsun og útilokun.

Eineltisteymi

Við Grunnskóla Bolungarvíkur er starfandi eineltisteymi. Í teyminu eru auk stjórnenda, fulltrúi kennara, stuðningsfulltrúa og starfsmaður dægradvalar.

Forvarnir

Allir þeir sem að skólasamfélaginu koma bera ábyrgð á því að vinna gegn einelti og koma í veg fyrir það með öllum tiltækum ráðum. Þessir aðilar eru: kennarar og starfsfólk skólans, nemendur, foreldrar, fræðslu- og bæjaryfirvöld. Einelti á aldrei líðast.

 • Skólinn setur sér ákveðin viðmið í samskiptum sem miða að því að allir starfsmenn skólans, nemendur og forráðamenn geti unnið eftir sömu gildum sem stuðla að jákvæðum samskiptum og góðum skólabrag.
 • Eineltisáætlun skólans er kynnt í upphafi hvers skólaárs á starfsmannafundi þar sem hún er endurskoðuð og þau viðmið sem skólinn setur sér í samskiptum eru samræmd. Sú samræming er liður í forvörnum gegn einelti og öðru ofbeldi. Mikilvægt er að bjóða starfmönnum reglulega upp á fræðslu um málaflokkinn.
 • Eineltisáætlun skólans kynnt fyrir nemendum og forráðamönnum þeirra á haustfundum. Umsjónarkennari og bekkjarfulltrúar hvetja til þess að forráðamenn hafi í huga viðmið varðandi afmælisboð og aðrar samkomur.
 • Umsjónarkennari vinnur með nemendum að hausti sýnilegan bekkjarsáttmála. Nemendur eru hvattir til að ræða í trúnaði við kennara ef þeim á einhvern hátt líður ekki vel í skólanum.
 • Nemendur þjálfist í að vinna í hópum og sýni tillitssemi, virðingu, ábyrgð, sveigjanleika og umburðarlyndi. Efli sjálfstraust og samkennd sem stuðlar markvisst að frekari þátttöku í lýðræðislegu samstarfi.
 • Bekkjarfundir eru fastir á töflu hjá öllum bekkjum þar sem líðan, samskipti og hegðun er rædd.
 • Umsjónarkennari fer reglulega yfir eineltisáætlun skólans sem og skóla-/samskiptareglur með sínum bekk.
 • Fagkennarar og aðrir starfmenn noti þau tækifæri sem gefast til að ræða og þjálfa mikilvægi góðra samskipta.
 • Stuðlað er markvisst að samvinnu heimilis og skóla, fræðsla í boði fyrir foreldra. Virk gæsla í frímínútum, skólahúsi og vettvangsferðum á vegum skólans.
 • Niðurstöður úr Skólapúlsinum nýttar í vinnu gegn einelti.
 • Skólinn nýti hinn árlega Dag gegn einelti til þess að vekja athygli á mikilvægi góðra
 • samskipta með það að markmiði að vinna gegn einelti - gera meira úr verkefninu.
 • Eineltisteymi skólans hittist að hausti og gerir áætlun um forvarnir fyrir skólaárið og fundar reglulega.
 • Viðbragðsáætlun grunnskólans við einelti er aðgengileg á heimasíðu skólans.

Að setja mörk

Skólinn vinnur eftir einföldu kerfi þar sem nemendum er kennt að setja sér mörk. Við nefnum það “Þriggja þrepa kerfið, - að setja mörk”. Allir nemendur skólans þekkja kerfið. Markmiðið með því er að þjálfa nemendur í að setja öðrum mörk og virða mörk annarra.

Farið er í gegnum kerfið á hverju hausti í öllum bekkjum.

Hugsanlegar vísbendingar um einelti

Verði foreldrar eða starfsmenn varir við einhver neðangreind einkenni eða önnur sem benda til að barninu líði illa er mikilvægt að kanna málið. Allir sem hafa vitneskju um hvers konar líkamlegt eða andlegt ofbeldi meðal nemenda ber að tilkynna það til umsjónarkennara.

Tilfinningalegar

 • Breytingar á skapi.
 • Tíður grátur, viðkvæmni.
 • Svefntruflanir, martraðir.
 • Breyttar matarvenjur, lystarleysi – ofát.
 • Lítið sjálfstraust, hræðsla og kvíði.
 • Depurð, þunglyndiseinkenni, sjálfsvígshugsanir.

Líkamlegar

 • Líkamlegar kvartanir t.d. höfuðverkur, magaverkur.
 • Kvíðaeinkenni t.d. nagar neglur, stamar, kækir ýmis konar.
 • Líkamlegir áverkar s.s. skrámur og marblettir sem barnið getur ekki útskýrt.
 • Rifin föt og/eða skemmdar eigur.

Félagslegar

 • Virðist einangrað og einmana, tekur ekki þátt í félagsstarfi.
 • Fer ekki í og fær ekki heimsóknir, fáir eða engir vinir.

Hegðun

 • Óútskýranleg skapofsaköst og/eða grátköst.
 • Neitar að segja frá hvað amar að.
 • Árásargirni og erfið hegðun.

Í skóla

 • Hræðist að fara eitt í og úr skóla, biður um fylgd og/eða fer aðra leið.
 • Leggur fyrr eða seinna af stað í skólann en venjulega.
 • Mætir iðulega of seint eða byrjar að skrópa.
 • Forðast ákveðnar aðstæður í skólanum t.d. leikfimi og sund.
 • Hættir að sinna náminu, einkunnir lækka, einbeitingarörðugleikar.
 • Einangrar sig frá skólafélögum.
 • Forðast að fara í frímínútur.

Á heimili

 • Neitar að fara í skólann.
 • Dregur sig í hlé.
 • Biður um auka vasapening.
 • Týnir peningum og/eða öðrum eigum.
 • Neitar að leika sér úti eftir skóla.
 • Byrjar að leggja önnur börn eða systkini í einelti.
 • Reynir að fá foreldra sína til að tala við kennarann, skólafélagana eða aðra foreldra.
 • Verður niðurdregið eða órólegt eftir frí.

Viðbrögð eineltismála í Grunnskóla Bolungarvíkur

Ef grunur leikur á eða staðfesting liggur fyrir að einelti eigi sér stað er það skýr stefna Grunnskóla Bolungarvíkur að tekið sé strax á málinu.

Grun um einelti ber að tilkynna formlega á eyðublaði sem finna má hér. Nauðsynlegt er að vitneskja um einelti berist til umsjónarkennara og stjórnendur skólans. Umsjónarkennari og/ eða sá starfsmaður sem fær vitneskju um einelti skal taka á málinu strax. Umsjónarkennari byrjar á því að hafa samband við aðila úr eineltisteymi. Þeir hafa samráð um viðbrögð og aðgerðir. Eineltismál geta verið mismunandi og mikilvægt að vinna hvers máls fari eftir eðli þess. Rannsaka þarf hvert mál og meta hvort hætta sé á ferðum.

Grunur um einelti

 • Sá sem tekur við skriflegri tilkynningu kemur henni til eineltisteymis sem ákveður verkaskiptingu.
 • Skráning hefst.
 • Ábyrgðaraðili hefur samband við forráðamenn barns sem grunur leikur á að verði fyrir einelti ( ef tilkynning kemur ekki frá þeim), aflar frekari upplýsinga og greinir frá næstu skrefum. Áætlun er unnin í samráði við forráðamenn þolanda.
 • Upplýsa starfsfólk skólans sem kemur að nemandanum.
 • Afla upplýsinga og auka eftirlit í kennslustundum og frímínútum.
 • Kanna líðan og bekkjaranda.
 • Ræða við valda nemendur.
 • Ef vinnsla málsins leiðir í ljós að ekki er um einelti að ræða er málinu lokið formlega með undirskrift foreldra og gerðar viðeigandi ráðstafanir eftir eðli málsins t.d. ef um samskiptavanda er að ræða.

Einelti á sér sannanlega stað

Ef ljóst er að einelti hefur átt sér stað þarf að skipuleggja einstaklingsbundin viðtöl við þolanda, geranda og forráðamenn sbr. 5. gr um ábyrgð og skyldur skólasamfélagsins í grunnskólum

Vinnulag í eineltismálum

 • Samstarf við forráðamenn.
 • Almennt eru umsjónarkennari eða staðgengill hans og aðili úr eineltisteymi skólans saman í viðtölum við bæði þolanda og geranda.
 • Skólinn veitir viðeigandi stuðning við þolanda og geranda þar til máli lýkur.
 • Gerð er áætlun um eftirfylgd.
 • Þar sem það á við skal halda reglulega bekkjarfundi til að styrkja samskipti innan hópsins.
 • Upplýsa skólasamfélagið.
 • Ef um alvarlegt ofbeldi er að ræða er það tilkynnt til nemendaverndarráðs.
 • Eineltismálum er lokið í samráði við forráðamenn með skriflegum hætti.

Áætlunin var yfirfarin í apríl 2020

Halldóra Dagný Sveinbjörnsdóttir

skólastjóri