144 skólaár Grunnskólans hafið
137 nemendur hefja nám
Grunnskóli Bolungarvíkur var settur í 144. sinn við hátíðlega athöfn á sal skólans fimmtudaginn 21. ágúst.
137 nemendur hefja nám við skólann ásamt því að starfsmennirnir eru 38 talsins. Guðbjörg Stefanía, deildarstjóri, bauð alla velkomna, Sigurborg Sesselía Skúladóttir spilaði lagið Sonatina á píanó, að því loknu setti Halldóra Dagný, skólastjóri skólann.
Skólinn styrkir stoðþjónustu sína með tveimur námsverum ásamt því að Salóme Halldórsdóttir hefur verið ráðin sem sérkennari við skólann. Bryngerður Súla Hjaltadóttir hefur einnig störf við skólann sem stuðningsfulltrúi ásamt Helgu Svandísi Helgadóttur sem mun starfa sem umsjónarkennari á unglingastigi. Margrét Gunnarsdóttir hefur verið ráðin í stöðu skólaliða og Guðbjörg Ebba Högnadóttir er komin aftur til starfa eftir árs fjarveru. Við bjóðum nýja nemendur og starfsmenn velkomna í hópinn.
Samstarf heimilis og skóla er einn stærsti hluti skólastarfsins og vonumst við til þess að það verði eins farsælt og undanfarin ár. Haustfundir verða haldnir fyrir foreldra og forráðamenn nú í upphafi skólaársins og vonumst við til þess að sjá sem flesta.
Skólinn hefur verið í Erasmusverkefni síðan í janúar 2024 og lýkur því nú í haust með heimsókn nemenda frá Tyrklandi, Spáni og Ungverjalandi. Áfram höldum við í spennandi verkefnum þar sem skólinn hlaut tveggja ára styrk í verkefni með skólum í Tyrklandi, Rúmeníu og Ítalíu sem ber heitið Online future. Markmið verkefnisins er að stuðla að öryggri og ábyrgri notkun tækni og vekja athygli á stafrænum fótsporum og áhættum á netinu.
Skólaárinu skiptum við upp í sex lotur og einkennir einn grunnþáttur menntunar hverja lotu fyrir sig. Í ár byrjum við á lotunni Heilbrigði og velferð en í lok hennar munu nemendur bjóða foreldrum og forráðamönnum sínum á kynningu þar sem þeir fara yfir markmið sín fyrir skólarið.
Eins og undanfarin ár byrjum við á útiíþróttum út september.