Móttökuáætlun

Móttökuáætlun Grunnskóla Bolungarvíkur gildir fyrir alla nemendur sem hefja skólagöngu sína við skólann óháð aldri og bakgrunni. Móttökuáætunin er mikilvægt verkfæri svo að allir fái að aðlagast vel í nýjum skóla. Í Grunnskóla Bolungarvíkur er lögð rík áhersla á að taka vel á móti nýjum nemendum og foreldrum þeirra. Mikilvægt er að byggja upp öflugt samstarf á milli heimila og skóla um skólastarfið í heild. Því skiptir máli að byggja upp góð tengsl strax við upphaf skólagöngu nemenda. Til að svo geti orðið þarf að taka tillit til ólíks bakgrunns nemenda. Skólinn lítur á fjölbreytileika nemendahópsins og ólíkan bakgrunn sem tækifæri.

Foreldrar bera ábyrgð á skráningu barna sinna, hvort sem það er við upphaf grunnskólagöngu eða flutning milli skóla/sveitarfélags. Skólastjóri ber ábyrgð á móttöku nemenda og að skráningar séu réttar. Allir starfsmenn skólans þurfa að þekkja til og geta leitað sér gagnlegra upplýsinga um góða móttöku og farsæla skólabyrjun allra nemenda.

Móttökuáætlun nemenda í 1. bekk

Í aðalnámskrá grunnskóla segir að farsæll flutningur barna úr leikskóla í grunnskóla feli í sér undirbúning og aðlögun. Leikskólabörn þurfa að fá tækifæri til að kynnast væntanlegum grunnskóla á meðan þau eru enn í leikskóla.

Samstarf leik- og grunnskólans

Gott samstarf er á milli leik- og grunnskólans í Bolungarvík. Upphaf grunnskólagöngu markar kaflaskil í lífi hvers nemanda. Markmiðið með samstarfi skólastiganna er að brúa bilið á milli þeirra og þannig stuðla að auknu öryggi og vellíðan foreldra og barna. Þannig fá leikskólabörnin innsýn í skólastarf grunnskólans og fá í leiðinni tækifæri til að kynnast nýja skólanum, starfsfólki og nemendum.

Umsjónarkennari 1. bekkjar og deildarstjóri leikskóla skipuleggja í sameiningu samstarf vetrarins. Haldnir eru tveir sameiginlegir fundir leik- og grunnskóla á hverju ári. Annar í ágúst þar sem samstarf vetrarins er skipulagt, samstarfið felst í einni heimsókn í leikskólann og tveimur til þremur heimsóknum í grunnskólann yfir veturinn. Auk þess er verðandi 1. bekk boðið upp á vorskóla sem haldinn er í maí með þeim umsjónarkennara sem tekur við bekknum. Hinn sameiginlegi fundurinn er að vori þar sem leikskólakennarar skila umsögnum og viðeigandi gögnum er varðar verðandi nemendur 1. bekkjar. Skilafundurinn er eiginleg innritun nemenda í skólann.

Foreldrafundur

Nemendur og foreldrar þeirra fá bréf frá skólanum að vori. Þar eru foreldrar boðaðir á fund annað hvort að vori eða snemma að hausti. Þar er starfsemi skólans kynnt nánar og farið yfir heimasíðuna og hvernig hægt er að nýta hana. Farið er yfir skólareglur, þ.m.t. mætingareglur. Þá eru einnig skipaðir bekkjarfulltrúar úr hópi foreldra og farið verður yfir hlutverk þeirra. Á fundinum er kjörið tækifæri fyrir foreldra til að hittast og kynnast örlítið auk þess sem foreldrar kynnast skólanum og fá aukna innsýn í skólastarfið.

Móttökuáætlun nemenda í 2. – 10. bekk

Þegar óskað er eftir skólavist fyrir nemanda í Grunnskóla Bolungarvíkur er foreldrum vísað á skólastjóra sem boðar foreldra í móttökuviðtal í skólanum. Mikilvægt er að foreldrar séu upplýstir um hvaða gögn þau skulu koma með í viðtalið er varða skólagöngu barnsins, t.d. greiningarskjöl, skólasókn, heilsufarsupplýsingar ef um ofnæmi er að ræða o.s.frv.

Skólastjóri tilkynnir umsjónarkennara um væntanlegan nemanda og hvenær móttökuviðtal fer fram. Skólastjóri ákveður hverjir sitja í viðtalinu fyrir hönd skólans. Alla jafna er það skólastjóri og umsjónarkennari. Hverju sinni þarf að meta hvort þörf sé á að kalla til aðra aðila svo sem fulltrúa sérkennslu eða túlk.

Móttökuviðtal

Það er á ábyrgð skólastjórnenda að nauðsynlegra gagna sé aflað fyrir móttökuviðtalið (sjá viðhengi 1).

Markmið móttökuviðtalsins er tvíþætt. Annars vegar að veita helstu upplýsingar um skólann til nemanda og foreldra hans. Hinsvegar að fá upplýsingar um nemandann. Í viðtalinu er farið yfir upplýsingar um nemandann og sérþarfir hans ef einhverjar eru. Til að hægt sé að undirbúa komu hans á sem bestan hátt eru fengnar upplýsingar um bakgrunn nemandans, t.d. móðurmál, námslega stöðu, áhugamál og væntingar þannig að hægt sé að byggja námið upp eftir reynslu og stöðu nemandans.

Auk þess er skólinn kynntur og farið yfir fasta þætti skólastarfsins og öll þau atriði sem varðar skólagöngu nemandans. Þar má nefna samstarf heimilis og skóla, heimasíða skólans, Mentor, mötuneyti, bekkinn, stundaskrá, félagsstörf, það tómstundastarf sem er í boði og annað sem kemur upp í umræðunni. Lögð er áhersla á að svara spurningum foreldra og nemanda. Að lokum er gengið um skólann og húsnæðið kynnt með sérstakri áherslu á þau rými sem nemandinn sækir á skólatíma. Sjá má lista yfir þau atriði sem fara á yfir á móttökufundinum í viðhengi 2.

Hlutverk einstakra starfsmanna

Skólastjóri boðar nemanda, foreldra hans og aðra hlutaðeigandi í móttökuviðtal og ber ábyrgð á því að afla viðeigandi gagna (sjá viðauka 1). Sé eitthvað athugavert við heilsu nemandans, svo sem ef um alvarlegt ofnæmi er að ræða, sykursýki eða aðrir sjúkdómar, er það í höndum skólastjóra að upplýsa starfsfólk skólans.

Deildarstjóri setur tilkynningu á upplýsingaskjá kennara þar sem vakin er athygli á að nýr nemandi sé væntanlegur.

Umsjónarkennari, í samstarfi við skólastjóra, undirbýr komu nýs nemanda og tilkynnir öðrum starfsmönnum skólans sem koma að nemandanum um komu hans og kemur á framfæri nauðsynlegum upplýsingum til allra þeirra sem koma að kennslu hans í skólanum. Einnig undirbýr umsjónarkennari nemendur bekkjarins fyrir komu nemandans og tilkynnir foreldrum í bekknum um komu nýja nemandans. Umsjónarkennari hefur samband heim tveimur vikum eftir að nemandi er byrjaður. Ræðir þá líðan nemandans og upplifun hans og foreldra hans af skólanum. Svarar spurningum sem upp kunna að koma.

Mikilvægt er að allir starfsmenn, sérstaklega í gæslu frímínútna og búningsklefum fylgist með nýja nemandanum, gefi sig á tal við hann og styðji eftir þörfum t.d. í leikjum og íþróttum.

Móttökuáætlun nemenda með annað móðurmál en íslensku

Fyrir erlenda nemendur sem hefja nám í Grunnskóla Bolungarvíkur gildir, auk almennrar móttökuáætlunar, að sérstaklega er tekið mið af ólíkum bakgrunni þeirra. Bakgrunnur barna sem eru af erlendu bergi brotnir er mismunandi en þó má ekki gleyma að einstaklingsmunur er einnig mikill. Þessir nemendur koma frá mörgum og ólíkum menningarsvæðum og eiga það margir hverjir sameiginlegt að vera byrjendur í íslensku. Tungumálafærni og færni á öðrum námssviðum er skoðuð sérstaklega.

Samskipti og aðstæður sem mæta erlendum nemendum í íslenskum skólum geta verið þeim framandi. Þeir þurfa margir hverjir bæði að tileinka sér nýtt tungumál auk nýrrar samskiptafærni og læsi á íslenska menningu. Vegna þessara flóknu aðstæðna er afar mikilvægt að koma skýrum upplýsingum um skólann, skólakerfið og samskiptahætti innan skólans til nemenda og foreldra strax við fyrsta viðtal. Upplýsingar um námið og skipulag skólastarfsins þurfa að vera góðar og aðgengilegar fyrir alla foreldra til þess að þeir geti á sem bestan hátt átt hlutdeild í námi og skólastarfi barna sinna. Góð persónuleg tengsl nemenda við kennara og samskipti skóla við foreldra geta skipt sköpum þegar kemur að skólagöngu nemandans.

Leggja ber áherslu á öflugt samstarf við heimilin um þjálfun í íslensku sem öðru tungumáli á öllum stigum grunnskóla. Tryggja skal að nemendur sem eru af erlendu bergi brotnir og foreldrar þeirra fái aðgang að upplýsingum um grunnskólastarfið frá skólastjóra og umsjónarkennara. Túlkaþjónusta í boði, ef þörf er á. Þetta er mikilvægt samstarfsverkefni heimila og skóla og fjölskyldan gegnir veigamiklu hlutverki í að skapa virðingu fyrir báðum tungumálunum, styrkja þau og rækta og viðhalda áhuga nemenda á virku tvítyngi.

Mikilvægt er að líta á þessa nemendur sem hæfileikaríka einstaklinga með fjölbreytta þekkingu og kunnáttu en ekki nemendur sem tala ekki íslensku.

Eftir móttökuviðtal

Brýnt er að nemandinn fylgi bekkjarfélögum eins mikið og kostur er og fái til þess nauðsynlegan stuðning. Því er farin sú leið að nemandi fylgi sínum bekk eins mikið og unnt er en sæki auka kennslu í íslensku sem öðru tungumáli eins og hægt er

Fljótlega eftir móttökuviðtal er staða nemandans í íslensku metin af umsjónarkennara nemenda með annað móðurmál en íslensku. Í framhaldinu leggur hann mat á það hversu mikinn tíma nemandinn þarf í aukakennslu í íslensku og í samráði við umsjónarkennara er svo búin til stundatafla fyrir nemandann þar sem fram kemur hvenær hann er í aukatímum í íslensku og hvenær hann er inni í bekk.

Mikilvægt er að í íslensku sem öðru máli liggi fyrir markmið, kennsluáætlanir og námsefni sem umsjónarkennari, umsjónarkennari nemenda með annað móðurmál en íslensku og viðkomandi greinakennarar, eftir því sem við á, vinna í sameiningu miðað við stöðu nemandans. Auk þess er mikilvægt að hlutaðeigandi aðilar fylgi stöðunni reglulega eftir. Umsjónarkennari nemenda með annað móðurmál en íslensku stýrir samstarfi við umsjónarkennara.

Hlutverk einstakra starfsmanna

Skólastjóri

Auk hefðbundinna atriða sem skólastjóri sér jafnan um við skráningu nýs nemanda í skólann þarf skólastjórinn að útvega túlk sé þess þörf. Ef við á þarf skólastjóri að óska eftir staðfestingu á dvalarleyfi og staðfestingu á að nemandi sé með íslenska kennitölu.

Umsjónarkennari

Gegnir lykilhlutverki í samstarfi heimils og skóla og er í raun og veru tengiliðurinn þar á milli. Þess vegna ber honum að leggja sig fram um að kynnast foreldrum og aðstæðum heima fyrir til að auðvelda samstarfið. Áríðandi er að foreldrar séu upplýstir um að þeir séu velkomnir í skólann og geti haft samband símleiðis eða í gegnum tölvupóst ef spurningar vakna.

Það er á ábyrgð umsjónarkennara að koma viðeigandi upplýsingum um nemandann til þeirra starfsmanna sem koma að nemandanum. Auk þess þarf umsjónarkennari að fylgjast sérstaklega með hvernig nemandinn fótar sig í skólanum fyrstu vikurnar og aðstoða nemandann við að mynda tengsl við bekkjarfélaga sé þess þörf.

Umsjónarkennari þarf jafnframt að funda með umsjónarkennara nemenda með annað móðurmál en íslensku og stuðningsfulltrúa og fá haldbærar upplýsingar um stöðu nemandans í íslensku. Síðan þurfa þessir aðilar ásamt greinakennurum í sumum tilfellum að setja niður markmið, kennsluáætlanir og finna til námsefni. Auk þess sem þeir ákveða með hvaða hætti eftirfylgni með stöðu og gengi nemandans í skólanum skuli vera.

Umsjónarkennari nemenda með annað móðurmál en íslensku

Umsjónarkennari nemenda með annað móðurmál en íslensku gegnir veigamiklu hlutverki í móttöku nemenda með annað móðurmál en íslensku. Hann metur hvern nemanda fyrir sig og út frá því ákvarðar hann hversu mikinn tíma nemandi þarf í íslensku sem öðru tungumáli. Hann sinnir íslenskukennslu nemandans og útbýr kennsluáætlun með markmiðum út frá stöðu hvers nemanda. Í samráði við umsjónarkennara setur hann saman stundatöflu fyrir nemandann og ákvarða þeir einnnig í sameiningu hvernig námsmati og eftirfylgni skal háttað.

Nemendur með sérþarfir

Um er að ræða nemendur sem eru með einhverskonar sérstakar þarfir tengdar námi og/eða daglegu lífi. Auk almennrar móttökuáætlunar gildir að ef til er sálfræðimat eða annarskonar greining á nemendum er mikilvægt að þau gögn fylgi þeim svo að hægt sé að skoða málin heildstætt og meta þarfir hvers og eins.

Umsjónarkennari og sérkennari hafa umsjón með móttöku nemenda með sérþarfir í skólanum og bera ábyrgð á samstarfi við sérgreinakennara og foreldra.

Oft fær nemandi aðstoð stuðningsfulltrúa í upphafi en þörfin fyrir aðstoð er svo metin jafnt og þétt.

Einstaklingsnámskrá

Einstaklingsnámskrá skal gerð þegar nemandi víkur verulega frá námsskrá bekkjarins. Hún getur náð yfir eina eða fleiri námsgreinar allt eftir stöðu nemandans.

Umsjónarkennari, þroskaþjálfi og sérkennari bera sameiginlega ábyrgð á gerð einstaklingsnámskrár þar sem tekið er mið af greiningum og/eða þroskamati viðkomandi nemenda og mati starfsmanna á hverjum tíma.

Í einstaklingsnámskrá skal eftirfarandi koma fram: námsmarkmið, námsefni og hvernig námsmati skal háttað. Kennslan getur farið fram með eða án stuðnings í almennum bekk, sérkennslu í litlum hópi eða einstaklingskennslu utan bekkjar.

Námsmat er til þess að fylgjast með hvernig nemanda tekst að mæta markmiðum einstaklingsnámskár og örva nemendur til framfara. Vitnisburður getur bæði verið með bókstöfum og/eða orðum en umsögn þarf að fylgja með til hvatningar og stuðnings. Nemendur með sérþarfir fá vitnisburð birtan með svipuðum hætti og aðrir nemendur skólans.

Ef nemandi sækir kennslu til sérkennara 50% eða meira hlutfall er sérkennari valinn sem umsjónarkennari barnsins.

Viðaukar

Viðauki 1 - Fylgigögn í móttökuviðtal eftir því sem við á.

Innritunareyðublað

Stundaskrá

Skóladagatal

Skráningarblað í mötuneyti

Eyðublað sem samþykkir myndbirtingu á miðlum skólans

Aðgangur í Mentor

Skráning í dagvistun eftir skóla

Dagskrá tómstundastarfs eftir skóla

Viðauki 2

Helstu þættir sem komið er inn á í móttökuviðtalinu:

1. Skólareglur og tilkynningar varðandi veikindi og leyfi.

2. Upplýsingar um skóladagatal, stundatöflu, umsjónarbekk, námsgögn og heimanám.

3. Hlutverk foreldra hvað varðar heimanám og samstarf heimilis og skóla

4. Upplýsingar um sund og íþróttatíma (fatnaður).

5. Upplýsingar um Mentor og heimasíðu skólans.

6. Upplýsingar fengnar um fyrri skólagöngu, námsárangur og áhugamál.

7. Möguleikar á kennslu í móðurmáli nemandans.

8. Upplýsingar um mötuneyti og nestistíma.

9. Upplýsingar um stoðþjónustu skólans (sérkennsla, aðstoð við heimanám, skólahjúkrunarfræðingur).

10. Upplýsingar um skólaþjónustu (sálfræðingur, kennsluráðgjafi).

11. Frímínútur og útivist (klæðnaður sem hæfir veðri).

12. Upplýsingar um íþróttir og tómstundir sem eru í boði eftir skóla.

13. Upplýsingar um dagvistun eftir skóla ef nemandi er í 1. – 4. bekk.

14. Viðburðir skólans útskýrðir eftir því sem á við.

15. Foreldrar/forráðamenn fylla út eyðublað með öllum mikilvægum upplýsingum sem við koma barninu.

16. Ef nemandi er ekki kominn með kennitölu er minnt á mikilvægi þess að hún berist sem allra fyrst.

17. Að viðtali loknu er gengið um skólann og nemanda og foreldrum sýnt skólahúsnæðið, mötuneyti og íþróttahús.

18. Samþykki foreldra um myndbirtingar á vegum skólans.

19. Fyrsti skóladagur staðfestur

Yfirfarið vor 2022