Gróðurhúsið okkar

Haustið 2021 fékk Grunnskóli Bolungarvíkur Bamba gróðurhús til umráða, sem bæjarfélagið hafði fengið að gjöf frá fyrirtækinu Bambahús, en það byrjaði starfsemi sína hér í Bolungarvík. Bambahúsið er gert úr 1000 L tönkum. Bæði eru nýttir tankarnir og grindurnar utan af þeim og er framleiðslan því frábær endurvinnsla þessa tanka sem annars væri hent.

Ákveðið var að árlega myndi 5. bekkur skólans taka þátt í verkefni sem tengdist gróðurhúsinu. Vorið 2022 var verkefnið þrískipt. Við hófumst við handa við að setja mold í 7 kör af 8 í gróðurhúsinu. Ákveðið var að nýta eitt karið sem safnhaug og geta þannig orðið sjálfbær með dálítið af gróðurmold þegar fram í sækir. Í mars byrjaði undirbúningur inni í skólastofunni. Þá fórum við í gegn um fræðslu um sáningu og ræktun. Þá sáðum við kryddjurtum og sumarblómum, sem var bæði sett í gróðurhús og einnig fengu börnin að taka með sér heim. Við endurunnum mjólkurfernur og notuðum þær sem sáðbakka. Fylgst var með og skráð þegar eitthvað fór að koma upp.

Í lok apríl var sáð radísum, sem nemendur tóku upp og borðuðu síðasta skóladaginn. Í maí var sáð gulrótum, sellerí, spergilkáli og jarðarberja plöntur gróðursettar. Þegar búið var að taka upp radísurnar var spínati, grænkáli og steinselju sáð. Nemendur útbjuggu upplýsingar sem settar voru upp í gróðurhúsinu um hverja tegund. Nemendur tóku þátt í að vökva og hreinsa beðin. Í haust höfum við verið að nýta grænmetið bæði fyrir nemendaverkefni, mötuneytið, nemendur og starfsmenn, auk þess sem heppnir gestir á tjaldsvæðinu hafa fengið að nýta sér salat og fleira. Við höfum líka geta nýtt dýralífið í gróðurhúsinu í fræðslu skini. Á fyrsta árinu lærðum við ýmislegt sem má gera öðruvísi líkt og í öllu öðru leiðsagnarnámi. Gaman verður að sjá hver þróunin verður hjá okkur.