Símenntunar- og Starfsþróunaráætlun

Símenntunaráætlun 2019 til 2022

Hverjum skóla ber að gera símenntunaráætlun. Tími til símenntunar markast af gildandi kjarasamningi sem gerir ráð fyrir 150 klst. á ári til endurmenntunar og undirbúnings kennara. Skipting þessa tíma getur verið mismunandi milli kennara, skóla og ára.

Skipta má símenntun starfsmanna í tvo meginþætti, þætti sem eru nauðsynlegir fyrir skólann og þætti sem hver starfsmaður metur æskilega eða nauðsynlega fyrir sig. Starfsþróun kennara ætti í lang flestum tilvikum að vera í samræmi við stefnu skólans og starfsþróunaráætlun. Starfsþróun kennara er skráð á sérstakt eyðublað “Staðfesting starfsmanns á símenntun” sem skólastjóri og starfsmaður ræða í starfsþróunarviðtali.

Skólastjórnendur kanna í starfsþróunarviðtölum hvaða símenntun starfsmenn hafa áhuga á og telja að þeir þurfi til að halda sér við í starfi eða bæta nýrri þekkingu sem nýtist í starfinu. Auk þess skilgreina stjórnendur þörf á símenntun fyrir starfsfólk út frá símenntunaráætlun skólans. Í sameiningu ákvarða starfsmenn og stjórnendur almenna þörf fyrir námskeið og fræðslufundi út frá stefnu skólans, áhersluatriðum komandi vetrar og /eða þróunarvinnu.

Mikilvægt er að starfsmenn nýti lögbundinn undirbúnings tíma til að sinna símenntun sinni sem sækja þarf annars staðar. Sú símenntun sem í boði hefur verið á svæðinu nær ekki að sinna þörfum starfsmanna en sveitarfélögin á norðanverðum Vestfjörðum hafa tekið sig saman og halda sameiginleg námskeið á haustdögum fyrir kennara.

Til símenntunar teljast formleg fræðsla eins og nám, námskeið, fræðslufundir og fræðsluerindi. Símenntun getur einnig verið óformleg en undir það falla vettvangsferðir, teymisvinna, leshringir, þróunarvinna og undirbúningur á fræðslu fyrir aðra starfsmenn.

Ef skólinn sendir starfsmann á starfstengd námskeið, samkvæmt starfsþróunar áætlun eða eftir þörfum greiðir skólinn allan kostnað, ferða- og námskeiðsgjald. Ef starfsmaður óskar eftir að fara á námskeið sem nýtist honum í starfi en er ekki forgangsmál sækir hann í sinn sjóð fyrir ferða- og námskeiðskostnaði en heldur launum ef námskeið er á vinnutíma.

Ef starfsmaður óskar eftir að fara á námskeið sem hefur engin tengsl við starfið fjármagnar starfsmaðurinn símenntunina sjálfur.

Símenntunaráætlun Grunnskóla Bolungarvíkur er sett til þriggja ára í senn - á næstu árum er það ætlun starfsfólks skólans að starfsþróun starfsmanna þjóni framgangi skólastarfs og það sé í höndum skólans að velja sínar áherslur.

Endurskoðun á sýn og stefnu skólans í kjölfar endurskoðunar á skólastefnu sveitarfélagsins.

Heildarendurskoðun á innra mats markmiðum og viðmiðum skólastarfsins.

Endurskipulagning á öllu gæða- og innra mati skólans - og samræma stefnu skólans og starfshætti.

Heildarendurskoðun á starfsháttum og áætlanagerð er varðar nám og kennslu í samræmi við Aðalnámskrá grunnskóla frá 2011.

Lestarteymi vinnur að endurbótum og aðlögun lestarstefnu skólans að bættri lestarkennslu. Einblína á niðurstöður og árangur.

Sérstök áhersla á þjónustu við fjöltyngd börn og samvinnu og samstarf við foreldra þeirra.

Áherslur 2019 - ítarleg áætlun

Áherslur í skólaþróun kennara við Grunnskóla Bolungarvíkur skólaárið 2019-2020 verða:

Matstæki um þróun skólastarfs - innra mat
Ágúst: Bekkjarnámskrá
September: Bekkjarnámskrá
Október: Áætlanir / fyrirlestur
Nóvember: Áætlanir, teymisvinna ( innra mat / læsi/allir sem einn), greining gagna
Desember: Námsmat / leiðsagnamat
Janúar: Skólastefnan, áætlanir, teymisvinna
Ferbrúar: Áætlanir, teymisvinna
Mars: Áætlanir, teymisvinna
Apríl: Námsmat, sjálfsmat, skólaþróun
Maí: Námsmat, sjálfsmat, skólaþróun

Uppfært nóvember 2019