Allir sem einn
Síðast liðið haust hófst í fyrsta bekk Grunnskóla Bolungarvíkur tveggja ára verkefni sem ber heitið „Allir sem einn“.
Allir sem einn
Síðast liðið haust hófst í fyrsta bekk Grunnskóla Bolungarvíkur tveggja ára verkefni sem ber heitið „Allir sem einn“.
Markmið verkefnisins er að koma betur til móts við tvítyngda nemendur bekkjarins. Þar sem tveir þriðju nemenda sem hófu grunnskólagöngu sína í Bolungarvík síðast liðið haust eiga foreldra af erlendum uppruna var ákveðið að fara í frekari vinnu og var sótt um styrk til Sprotasjóðs m.a. til að geta bætt við sértæka kennslu þessara nemenda.
Niðurstaðan var svo sú að unnið var að markmiðum verkefnisins aðallega með þrennum hætti: með því að bæta við íslensku kennslu fyrir nemendur, með því að bæta við móðurmáls kennslu nemenda og með því að bjóða upp á sérstaka foreldratíma, einu sinni í mánuði. Þessir foreldratímar voru sérstaklega sniðnir að þörfum foreldra með íslensku sem annað tungumál en allir foreldrar í bekknum voru velkomnir. Við þekkjum það að foreldrar sem ekki eiga íslensku sem móðurmál, finnst oft erfitt að styðja barnið sitt í lestrarnáminu vegna takmarkaðrar þekkingar sinnar á tungumálinu. Einnig er vitað að þátttaka foreldra er afar mikilvæg, líka þeirra foreldra sem telja sig standa illa í málinu. Í foreldratímunum var m.a. farið yfir íslensku málhljóðin, orðaforða, hljóðgreiningu og ýmislegt hagnýtt fyrir foreldra. Með þessum hætti vildum við leitast við að styðja foreldra í að styðja börn sín í náminu.
Þar sem hugmyndin byggði á því að fá foreldra inn í skólann á skólatíma, fengum við atvinnurekendur í lið með okkur. Í haust fóru skólastjóri og umsjónarkennari bekkjarins á fund með öllum þeim atvinnurekendum sem við vissum að foreldrar ynnu hjá. Skemmst er frá því að segja að alstaðar þar sem við komum var okkur afar vel tekið og vilyrði veitt fyrir því að foreldrar gætu sótt þessar kennslustundir á vinnutíma.
Mæting og þátttaka foreldra var í flestum tilvikum mjög góð og almenn ánægja var með tímana bæði meðal foreldra, barna og starfsfólks skólans. Foreldrar töldu sig og börn sín standa betur í málinu eftir veturinn og niðurstöður bekkjarins sýna að framfarir þeirra í íslensku er langt umfram það sem við almennt eigum að venjast.
Verkefnið mun halda áfram næsta vetur þar sem við stefnum að því að byggja enn frekar ofan á þann grunn sem lagður var í vetur.