Hænsnahald í grunnskólanum
Útungunarstöðin er vinsælasti staður skólans um þessar mundir.
Útungunarstöð hefur verið komið upp í skólanum með um 20 eggjum og eru nemendur og starfsfólk skólans spennt fyrir gangi mála.
Það var gleðilegt að mæta í skólann á mánudagsmorgun, 12. maí, og heyra tíst í hænuunganum sem þá var búinn að klekjast út úr eggi sínu.
Það er spennandi að byrja skóladaginn á að kíkja á eggin og ungann. Það er einnig vinsælt að kíkja á stöðu mála í frímínútum eða stuttum skreppi-ferðum úr kennslustundum.
Ungarnir munu svo flytjast í hænsnakofann okkar þegar fram líða stundir. Nemendur á unglingastigi í „Hænsnavali“ sjá um umhirðu hænsnanna og kofans í umsjón Hildar Ágústsdóttur kennara.
Hænsnakofinn og girðingin þar í kring er griðastaður hænsnanna og viljum við halda sem mestri ró í kringum hann. Við viljum því brýna fyrir okkar nemendum og öðrum gestum að banka ekki í kofann, ekki klifra í girðingunni eða henda neinu inn til þeirra. Með virðingu og vinsemd getum við látið hænunum okkar líða sem allra best og það gerum við saman.