Íþróttahátíðin
Hin eina og sanna Íþróttahátíð Grunnskóla Bolungarvíkur var haldin síðastliðinn fimmtudag 26. október.
Við undirbúning höfðu nemendur leitað til fyrirtækja í bænum og á Ísafirði til að fá styrki. Gekk það ágætlega og nemendur, foreldrar og starfsfólk þakklát fyrir að eiga góða bakhjarla í nærsamfélaginu.
Allir skólar á Vestfjörðum fá boð um að koma og taka þátt með nemendur sína á unglingastigi.
Í ár komu nemendur frá Bolungarvík, Flateyri, Hólmavík, Ísafirði, Suðureyri, Súðavík og Þingeyri. Hátíðin fór fram að venju í Musteri vatns og vellíðunar og var keppt í hinum ýmsu greinum; bandý, fótbolta, sundblaki, körfubolta, sundi, skák, spurningakeppni og borðtennis. Fyrir þrem árum var hefðbundin keppni milli skólanna aflögð og nú spila nemendur í blönduðum liðum frá skólunum og fá liðsnöfnin; Gulir, Rauðir, Grænir, Bláir og liðin einkenna sig með samsvarandi lit.
Keppnin og hátíðin gekk vel og allir þátttakendur til fyrirmyndar. Þegar svona hátíð er haldin leggjast allir á eitt, starfsfólk skólanna og Musterisins, foreldrar og nemendur. Forsvarsmenn Íþróttahátíðarinnar eru þakklát öllum þeim sem komu að Íþróttahátíðinni með hvaða hætti sem er. Þetta er mikilvæg hátíð sem gerir nemendum kleift að keppa og taka þátt á sínum forsendum, liðsandi og gleði einkenndi hátíðina. Upplifun nýs Íslendings vakti athygli hjá einum af skipuleggjendum þegar hún var spurð hvernig henni líkaði svona hátíð:
"I come from another country, from Iraq and I have never been in a competition like this, this is amazing!"
Um kvöldið var Íþróttahátíðarball, þar voru tilkynnt þau úrslit að í 1. sæti urðu Rauðir með 51 stig, í 2. sæti Bláir með 50 stig, í 3.sæti Grænir með 40 stig og í 4. sæti Gulir með 36 stig. Þar komu Dj Egill Spegill og Aron Can fram eftir upphitun frá Dj skólans Valda Kára. Nemendur skemmtu sér vel og voru enn og aftur til fyrirmyndar í allri hegðun, umgengni og samskiptum.