Menningarhátíð á Torfnesi

28.8.2019

Stórskemmtileg menningarhátíð á Torfnesi!


Sinfo_astrid_lindgren_tonleikar-03944Sinfóníuhjómsveit Íslands, hljómsveit allra landsmanna heimsækir vestfirði.
Dagana 5. og 6. september verður heldur betur fjör hjá okkur á norðanverðum vestfjörðum en þá býður Sinfóníuhljómsveit Íslands upp á tvenna tónleika í Íþróttahúsinu á Torfnesi.
Gaman er að segja frá því að á meðal þeirra 5 einsöngvara og einleikara sem taka þátt í þessum tvennum tónleikum, eru 4 fyrrverandi nemendur Tónlistarskóla Ísafjarðar auk barnakóra af svæðinu og Hátíðarkórs Tónlistarskólans en fimmtudagstónleikarnir eru lokahnikkurinn á 70 ára afmælishátíð Tónlistarskóla Ísafjarðar og Tónlistarfélags Ísafjarðar.
Tónlistarhátíð sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Kjörið tækifæri fyrir vinnustaði að taka sig saman og skella sér á tónleika já eða fyrir bekkjarfulltrúa að hrista upp í bekkjarandanum og fara með ungviðið á tónleika, allir velkomnir og frítt inn!

fimmtudaginn 5. september kl. 19:30.
„Sópransöngkonan Herdís Anna Jónasdóttir flytur nokkur vinsæl sönglög og aríur með hljómsveitinni en hún er borin og barnfædd á Ísafirði og vakti nýverið mikla hrifningu fyrir söng sinn í La traviata hjá Íslensku óperunni. Á tónleikunum kemur einnig fram Hátíðarkór Tónlistarskóla Ísafjarðar undir stjórn Beötu Joó auk þess sem hinn bráðefnilegi píanóleikari Mikolaj Ólafur Frach, sem er aðeins 18 ára gamall, leikur lokaþátt úr píanókonsert nr. 2 eftir Chopin. Á tónleikunum hljóma einnig valdir kaflar úr vinsælli leikhústónlist Griegs við Pétur Gaut, meðal annars Morgunstemning og Í höll Dofrakonungs. Stefán Jón Bernharðsson, sem leiðir horndeild Sinfóníuhljómsveitarinnar, leikur einleik í hornkonserti sem Mozart samdi á hátindi ferils síns, um svipað leyti og hann samdi óperuna Brúðkaup Fígarós. Tónleikunum lýkur með hinni stórfenglegu fimmtu sinfóníu Sibeliusar. Hljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason, aðalgestastjórnandi sinfóníuhljómsveitarinnar“.

Á fjölskyldu- og skólatónleikum hjómsveitarinnar föstudaginn 6. september næstkomandi kl. 10:00 verður flutt tónlist úr leikritum, leikgerðum og kvikmyndum sem byggjast á ævintýrum Astridar Lindgren. Tónlist úr Línu langsokk, Emil í Kattholti, Bróður mínum Ljónshjarta og Á Saltkráku, allt í útsetningum Jóhanns G. Jóhannssonar. Gáskafull tónlist með grípandi laglínum þar sem hugljúfir hljómar fanga vináttu og væntumþykju betur en nokkur orð.
Söngvararar og sögumenn: Pétur Ernir Svavarsson og Þórunn Arna Kristjánsdóttir (fyrrverandi nemendur TÍ) bregða sér í hlutverk ýmissa sögupersóna ásamt Barnakór og Kórskóla Tónlistarskóla Ísafjarðar, Skólakórar Grunnskóla Bolungarvíkur, Önundarfjarðar, Suðureyrar og Þingeyrar.

Upplýsingar teknar að mestu af heimasíðu Sinfóníuhljómsveitar Íslands