Sigurvegarar

25.5.2022

Nemendur í 9. og 10 . bekk Grunnskóla Bolungarvíkur tóku þátt í fræðsluverkefni á vegum Matís skólaárið 2021-2022 sem gekk undir nafninu Grænir frumkvöðlar framtíðar. Árskóli á Sauðárkróki og Nesskóli í Neskaupsstað tóku einnig þátt í verkefninu. Helsta markmið verkefnisins var að fræða nemendur um lofstlags- og umhverfismál, áhrif loftslagsbreytinga á hafið og lífríki þess og möguleg áhrif á sjávarútveg og samfélagið. Áhersla var á valdeflingu ungmenna á landsbyggðinni með því að fræða þá um mikilvægi nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi. Kennararnir Hildur Ágústsdóttir og Elín Þóra Stefánsdóttir sáum um verkefnið innan skólans með dyggri aðstoð Gunnars Ólafssonar úr Djúpinu.

Nemendur unnu að ýmsum þematengdum verkefnum, ræddu við sjómenn, krufðu kosti og galla kvótakerfisins, heimsóttu og kynntu sér fyrirtæki á svæðinu svo að fátt eitt sé nefnt.       

 Í mars heimsótti hópurinn svo laxeldisfyrirtækið Artic Fish á Þingeyri. Þar fengu þau ítarlega kynningu á starfsemi fyrirtækisins, skoðuðu kvíarnar og veltu fyrir sér þeim áskorunum sem laxeldið stendur frammi fyrir. Út frá þessari heimsókn ákváðu þau að skoða betur og reyna að finna lausn á áskoruninni sem úrgangur frá fiskeldi er.

Í kjölfarið var haldin landskeppni sem Matís stóð fyrir. Guðbjörn, Már, Oliwier, Ólafur, Salvör, Margrét og Ingibjörg áttu verkefni sem bar yfirskriftina: Hreinsum botninn og skít-græðum og snérist um að nýta úrganginn sem dettur niður undir og í kring um kvíarnar í sæbjúgna-, bláskelja- og þörungaræktun. Til gamans má geta að verkefnið þeirra vann landskeppnina.

Umsögn dómnefndar sagði: þið eruð hugvitssöm og lausnamiðuð. Þið komuð auga á umhverfisvandamál sem skapast vegna fiskeldis í sjó og leituðuð lausna. Það var frábært að sjá skítinn sem safnast hefur fyrir, en það sjónarhorn fær almenningur yfirleitt ekki. Ykkar verkefni gengur út á að breyta úrgangi og botnfalli í auðlind sem nýtist, og gæti því komið náttúru og sjávarútvegsfyrirtækjum að gagni. Við hvetjum ykkur til að vinna lausnina áfram og hafa í huga mikilvægi líffræðilegs fjölbreytileika í vistkerfum í sjónum"

Til hamingju krakkar, framtíðin er klárlega björt í Bolungarvík!

Myndir og myndband má sjá hér :https://photos.app.goo.gl/9DrDzQkQFHCT5LEs8