Skólafréttir
Nú er fyrstu lotu skólaársins lokið og flytjum við því skólafréttir.
Þá er fyrstu lotu skólaársins lokið. Við skiptum skólaárinu upp í 6 lotur eftir grunnþáttum menntunar. Við vorum að ljúka við grunnþáttinn heilbrigði og velferð og nú tekur jafnrétt við. Í þeirri lotu sem nú er lokið unnu allir nemendur skólans markvisst að því að undirbúa sig fyrir nemendastýrð foreldraviðtöl.
Nemendur á yngsta stigi fóru í sjálfsskoðun, þeir gerðu sjálfa sig sem dúkkulísur, þeir skoðuðu og skráðu hvar þeir eiga heima, hvenær þeir eiga afmæli, hver áhugamál þeirra eru og styrkleikar. Þeir nýttu tæknina og breyttu sér í 80 ára einstakling – það var mikið hlegið í viðtölum þegar nemendur kynntu þetta verkefni. Þeir veltu fyrir sér hvað þeir væru búnir að afreka í lífinu þegar þeir ná þessum aldri og hvar þeir hefðu búið. Nemendur settu sér einnig markmið, ekki endilega námsmarkmið heldur persónuleg markmið eins og að hlusta meira og horfa minna.
Nemendur á miðstig unnu verkefni tengt sjálfsmynd sinni. Þeir skoðuðu hvernig þeir gætu verið góðir námsfélagar, hvernig góð samskipti fara fram, bæði sem samnemendur og við fólk í samfélaginu. Þeir skoðuðu hvað þeir sem einstaklingar kostuðu, eins og þau komu fram þann dag. Þeir kynntu sér einnig hvernig þeir gætu haldið heilsunni í lagi. Þeir greindu góða vini og skoðuð vináttu hring sinn. Nemendur unnu allan tímann að jákvæðum orðavegg.
Á unglingastigi var stuðst við valda kafla úr kennslubókinni Ég og sjálfsmyndin ásamt ýmsum aukaverkefnum. Allir nemendur á unglingastigi byrjuðu veturinn á því að búa til eitt púsl sem einkennir þau sjálf og stendur svo til að púsla bitunum saman og mynda samfellt púsluspil sem á að endurspegla fjölbreyttan nemendahópinn. Síðan voru hugtökin sjálfsmynd, sjálfstraust og sjálfsálit skoðuð og rædd. Einnig rýndu nemendur í það hvaða hópum þeir tilheyra og hvernig mismunandi hópar móta þá sem einstaklinga. Fjallað var um símanotkun, heilbrigð samskipti og mörk. Nemendur skoðuðu hvað einkennir góðan vin og góðan námsfélaga. Að lokum ígrunduðu nemendur hvert þá langar að stefna, hvað hjálpar þeim að komast þangað og hvað gæti staðið í vegi fyrir því. Að lokum útbjuggu nemendur afurð að eigin vali í tengslum við ofangreind verkefni sem þau kynntu fyrir foreldrum sínum í foreldraviðtali.
Við í skólanum erum mjög ánægð með fyrirkomulag nemendastýrðu viðtalanna og teljum það mjög ánægjulegt að sjá afrakstur nemenda og upplifa stolt þeirra af undirbúningsvinnu sinni. Okkur langar að fá viðbrögð frá foreldrum er varðar nemendastýrð foreldraviðtöl. Hér að neðan er linkur á örstutta könnun. Vinsamlegast gefðu þér mínútu eða tvær til að taka þátt. Niðurstöðurnar verða nýttar í gæðamat skólans.
Könnun um nemendastýrð foreldraviðtöl, smelltu HÉR
Bestu kveðjur