Skólalífið vikuna 16.-20. mars

20.3.2020

Póstur verður sendur á pólsku til þeirra sem við á.

Þessi vika í skólanum hefur vægast sagt verið öðruvísi en lagt var upp með. Starfsdagurinn 16. mars átti að einkennast af innra mats vinnu en bæði starfsfólk og stjórnendur hafa unnið markvisst í því starfi í allan vetur. Vegna aðstæðna fór dagurinn í skipulagsvinnu þar sem lá fyrir að breyta yrði hefðbundnu skólafyrirkomulagi. Veðrið var líka að stríða okkur þannig að sumir voru heima en þá fengum við gott tækifæri til að æfa okkur í þeim fjarfunda möguleikum sem við höfum. Þriðjudaginn lá allt skólahald niðri og var dagurinn vel nýttur í undirbúning heima.

Bæði miðvikudagur og fimmtudagur gekk vel, kennarar nýttu fyrstu tíma miðvikudagsins í að útskýra nýtt skipulag og svara spurningum nemenda. Kennara og stuðningsfulltrúar fylgja börnum um allan skólann til að koma í veg fyrir að hóparnir blandist. Bendum hér á tilmæli frá heimili og skóla um samgang barna eftir skólatíma á meðan samkomubanni stendur.

Um leið og við þökkum góðan skilning á breyttu fyrirkomulagi þá viljum við ítreka að mikilvægt er að nemendur mæti á þeim tíma sem þeim er gefinn. Margir eru að koma fyrr og safnast í stóran hóp hér fyrir utan. Það eru ekki starfsmenn á skólalóð á þessum tíma til að gæta þess að mismunandi hópar blandist ekki.

Læt fylgja með slóð um lykilskilaboð og forvarnaaðgerðir vegna Covid-19 í skólum.