Think blue, go green and drink clean
Erlendir gestir í heimsókn
Erasmus verkefninu “Think blue, go green and drink clean” er nú lokið en það hófst í janúar 2024. Verkefninu lauk með heimsókn samstarfsskólanna í Ungverjalandi, Tyrklandi og á Spáni hingað til Bolungarvíkur en 15 nemendur og 6 kennarar sóttu okkur heim dagana 22.-26. september. Nemendurnir gistu á heimilum þeirra nemenda á unglingastigi sem tóku þátt í verkefninu og gafst það mjög vel. Kennararnir gistu á Einarshúsi.
Flott dagskrá var þá daga sem hópurinn var hjá okkur. Farið var dagsferð á Dynjanda, Birkimel, Bolafjall og endað í kvöldmat í Skálavík. Haldið var pitsukvöld og diskótek. Allir nemendur verkefnisins héldu ýmsar kynningar, á landinu sínu, skólanum, bænum og hinum ýmsu verkefnum er tengjast yfirskrift verkefnisins ”Think blue, go green and drink clean”. Farið var í heimsókn í Rannsóknarsetur HÍ, Ósvör og Vatnsveitu Bolungarvíkur ásamt því að félagar í siglingaklúbbnum Sæfara tóku á móti hópnum. Ýmis fyrirtæki komu í skólann og kynntu starfsemi sína þar á meðal Blámi, Kerecis og Arctic Protein.
Gestirnir voru himinlifandi með ferðina og við sömuleiðis hve heimsóknin gekk vel. Við fengum mikið hrós fyrir samstarf heimilis og skóla og viljum við nýta tækifærið og þakka þeim foreldrum sem tóku þátt í verkefninu með okkur kærlega fyrir þeirra þátttöku. Rúsínan í pylsuendanum hjá mörgum gestanna var að sjá svo norðurljós í fyrsta sinn.
Peter, kennari frá Ungverjalandi gerði eftirfarandi myndband sem birtist á samfélagsmiðlum: https://www.facebook.com/reel/1371420667741214