Tími til að lesa

6.4.2020

  • Hvatning-til-forradamanna

Kæru foreldrar og forráðamenn

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur hleypt af stokkunum lestrarverkefni fyrir þjóðina, þar sem börn og fullorðnir eru hvött til að nýta til lesturs þann tíma sem gefst við núverandi aðstæður. 

Lestur er sérstaklega mikilvægur fyrir börn, enda ræðst námsárangur barna að miklu leyti af lesskilningi sem eykst með auknum lestri. Orðaforði eykst, nýjar hugmyndir kvikna, skilningur á lesmáli batnar og þannig skilningur á heiminum öllum. Því meira sem við lesum því betra!

Nýja lestrarverkefnið kallast Tími til að lesa. Heitið er dregið af aðstæðum sem nú eru uppi, þar sem margir hafa meiri tíma en áður til að lesa og þörfin fyrir hugarleikfimi hefur sjaldan verið meiri. Árangurinn er mældur í tíma, þar sem fólk er hvatt til að skrá allan sinn lestur á vefsíðunni timitiladlesa.is . Þar geta þátttakendur fylgst með sameiginlegum lestri þjóðarinnar frá degi til dags. 

Verkefnið mun standa til 30. apríl og að því loknu munum við freista þess að fá afraksturinn skráðan í Heimsmetabók Gunness. Slíkt hefur ekki verið gert áður og því yrði hér um að ræða fyrsta heimsmet sinnar tegundar.

Ég vona að þið hafið tök á að taka þátt. 

Lilja D. Alfreðsdóttir 
mennta- og menningarmálaráðherra