Tónleikar

4.9.2019

Tónlist er alheimstungumál sem allir skilja.

Í skólabyrjun núna í haust var söngelskum nemendum í 3. – 10. bekk í skólanum okkar boðið að taka þátt í einstakri tónlistarveislu á vegum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, þ.e. að vera hluti af stærri kór af norðanverðum Vestfjörðum sem syngur úrval tónlistar úr leikritum, leikgerðum og kvikmyndum sem byggjast á ævintýrum Astrid Lindgren, tónlistin er í útsetningu Jóhanns G. Jóhannssonar. Það voru 15 nemendur sem skáðu sig í kórinn og hafa þessir nemendur lagt mikið á sig við æfingar undir stjórn Sigrúnar Pálmadóttur.

Föstudaginn 6. september kl. 10:00 býður Sinfóníuhljómsveitin öllum börnum á fjölskyldu- og skólatónleika í Íþróttahúsinu Torfnesi, stjórnandi er Daníel Bjarnason. Án efa má búast við skemmtilegum tónleikum þar sem flutt verður lífleg og áheyrileg tónlist sem flestir þekkja. Viljum við hvetja foreldra (afa, ömmur, frænkur, frændur, systkini) til að mæta með börn sín á þessa áhugaverðu tónleika, það er ekki á hverjum degi sem börn og fullorðnir hafa tækifæri til að verða vitni að öðrum eins menningarviðburði.

Með kærri kveðju

Skólastjórnendur