Úrslit Stóru upplestrarkeppninnar

19.3.2023

  • 12

Jósef Ægir Vernharðsson frá Grunnskólanum á Suðureyri hlaut 1. verðlaun, Katla Guðrún Kristinsdóttir hlaut önnur verðlaun og Sigurborg Sesselía Skúladóttir hlaut þriðju verðlaun

Fimmtudaginn 16. mars fór lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fram í Félagsheimilinu í Bolungarvík. Þar tóku þátt fyrir hönd sinna skóla 11 nemendur úr 7. bekk á norðanverðu Vestfjörðum og stóðu sig með mikilli prýði. Helga Jónsdóttir deildarstjóri setti og kynnti hátíðina.

Höfundar keppninnar voru að venju tveir. Sá Rakel Ingólfsdóttir um að kynna þann fyrri sem var Gunnar Helgason og lásu keppendur upp úr bók hans Víti í Vestmannaeyjum. Seinni höfundurinn var Aðalstein Ásberg Sigurðsson og sá Stefanía Rún Hjartardóttir um að kynna hann. Í síðasta hluta keppninnar lásu þátttakendur ljóð að eigin vali.

Auk vandaðs lesturs þátttakenda fengu áhorfendur að hlýða á nemendur úr Tónlistarskóla Bolungarvíkur flytja nokkur lög. Voru það Sigurborg Sesselía Skúladóttir sem lék lagið Childrens song eftir Selvadore Rahni, Sylvía Rós Hermannsdóttir sem lék lagið Jósúa frá Jeríkó og Breki Þór Arnarson sem lék lagið Oh, when the saints. Þá flutti Alicja Lenkiewicz ljóð á móðurmáli sínu, pólsku.

Dómarar keppninnar voru þau Steinunn Guðmundsdóttir, Elfar Logi Hannesson, Guðbjörg Hjartardóttir, Gunnar Ólafsson og Sólrún Geirsdóttir. Þeirra beið mikið vandaverk að velja sigurvegara en niðurstaðan var sú að Jósef Ægir Vernharðsson frá Grunnskólanum á Suðureyri hlaut 1. verðlaun, Katla Guðrún Kristinsdóttir hlaut önnur verðlaun og Sigurborg Sesselía Skúladóttir hlaut þriðju verðlaun, en þær eru báðar úr Grunnskóla Bolungarvíkur. Öll fengu þau bókina Dýrin eftir Illuga Jökulsson og Veru Illugadóttur í verðlaun sem var gjöf frá Pennanum Eymundsson, og peningaverðlaun frá Landsbankanum. Þá fengu allir þátttakendur bókargjöf frá Kómedíuleikhúsinu og viðurkenningarskjal fyrir þátttöku sína í keppninni.

Markmið upplestrarkeppni í 7. bekk grunnskóla er að vekja athygli og áhuga á vönduðum upplestri og framburði. Miðað við frammistöðu þessara ungmenna ætti framtíðin að vera björt í þessum málum. 

20230316_165854Katla Guðrún Kristinsdóttir 

20230316_170032

Sigurborg Sesselía Skúladóttir

20230316_183130-2-