Skólastefna Bolungarvíkurkaupstaðar

Skólastefna Bolungarvíkur

2020-2025

Í Bolungarvík eru starfandi leikskólinn Glaðheimar, tónlistarskóli Bolungarvíkur og Grunnskóli Bolungarvíkur sem allir eru í göngufæri. Innangengt er á milli grunnskólans og íþróttamiðstöðvarinnar Árbæjar. Í grunnskólanum gefst nemendum á yngsta stigi kostur á lengdri viðveru og samfelldum skóladegi. Félagsmiðstöðin Tópaz er einnig til húsa í grunnskólanum.

Skólastefna Bolungarvíkur var unnin í samráði við starfsfólk, foreldra, nemendur og stjórnendur, einnig gafst öllum íbúum Bolungarvíkur kostur á að hafa áhrif við mótun skólastefnunnar.

Fræðsluyfirvöld í Bolungarvík, sem og aðrir sem komu að gerð skólastefnunnar eru sammála um að setja markið hátt og sýna fram á að metnaðarfullt skólastarf getur dafnað í Bolungarvík. Í kraftmiklu og fjölbreyttu samfélagi sem umvafið er stórbrotinni náttúru eru möguleikarnir óþrjótandi.

Staðan við upphaf skólastefnu

Við upphaf mótunar skólastefnu Bolungarvíkur kom fram í umræðum almennt traust og ánægja með störf skólanna í sveitarfélaginu. Því var lagt upp með að leggja áherslu á sérstöðu skólanna og einblína á gæðaskólastarf út frá fjölbreyttum þáttum starfsins. Á innleiðingartímabilinu verður áhersla á að koma upp ólíkum leiðum til að leggja mat á gæði skólastarfs og fjölbreytt námsmat, en um leið draga fram og halda því við, sem vel er gert.

Að lokinni innleiðingu verði þátttakendur í skólasamfélaginu meðvitaðir um hvernig greina megi gæði náms og átti sig á góðu skipulagi og framkvæmd kennslu. Einnig hvernig fagleg forysta og stjórnun skólastarfs er háttað í sveitafélaginu.

Leiðarstef

Með samvinnu og óbilandi trú á hvert öðru getum við breytt heiminum, framtíðin er okkar


Framtíðarsýn

Markmið með skýrri framtíðarsýn er að fá samfélagið í heild til að slá skjaldborg um skólastarf í Bolungarvík. Framsækið skólastarf þarf stuðning allra. Með fagmennsku, samvinnu og víðsýni er hægt að koma til móts við ólíkar þarfir þeirra sem að skólasamfélaginu standa. Framfarir og árangur í skólastarfi næst með þátttöku allra.

Samfélagslegar breytingar eru örari en breytingar á skólastarfi. Skýrri framtíðarsýn er ætlað að tryggja stöðuga endurskoðun og umbætur á skólastarfi. Skólastarf á að undirbúa börn fyrir framtíðina. Með markvissri faglegri endurskoðun er hægt að tryggja að skólastarfið staðni ekki í viðjum vanans. Öflugt skólastarf er einn af megin hornsteinum samfélagsins og stöðug skólaþróun er nauðsynleg til að halda í við síbreytilega tíma.

Í Bolungarvík er fjölbreytileika fagnað og nemendur hafa jafnt aðgengi að skapandi skólastarfi sem tekur mið af áhuga þeirra og fyrri þekkingu. Námið byggir á fagmennsku sem kann að meta leik, sköpun, áhuga og löngun nemenda til að prófa sig áfram. Í öruggu og hvetjandi námsumhverfi sem er í senn, traust, faglegt og framsækið hafa nemendur svigrúm til að vaxa og dafna á eigin forsendum. Markmiðið er að allir nemendur öðlist sjálfstraust til þess að takast á við síbreytileg og krefjandi verkefni í daglegu lífi og hafi þor til að leggja sitt af mörkum sem virkir þjóðfélagsþegnar í lýðræðissamfélagi.

Hlutverk

Hlutverk sveitarfélagsins gagnvart skólastarfi í Bolungarvík er að stuðla að alhliða þroska og velferð allra barna í sveitarfélaginu og tryggja að farið sé að lögum og reglugerðum í samvinnu við heimilin. Mikilvægt er að öll börn öðlist jafnan rétt til náms og með skólagöngu sé tryggt að börn eigi möguleika á að feta menntaveginn á eigin forsendum.

Til þess að möguleikar skólastarfs í Bolungarvík séu sem bestir þarf sveitarfélagið að styðja við starfsþróun starfsfólks, tryggja stöðuleika í sérfræðiþjónustu og góða aðstöðu til náms og kennslu. Einnig er mikilvægt að sveitfélagið styðji við og auðveldi samvinnu og samskipti skólanna við atvinnulíf og stofnanir nær og fjær.

Með því að sveitarfélagið setji markið hátt og styðji við framkvæmd framúrskarandi skólastarfs er sveitarfélagið ekki bara að sinna lögbundnu hlutverki heldur að gera kröfur um fagmennsku, víðsýni, samvinnu og árangur.

Fagmennska í uppeldisstarfi þar sem náms- og kennslufræðilegt skólastarf byggir á lögum og reglugerðum en á sama tíma á nýjustu menntarannsóknum. Áhersla á gæðastarf og stöðugar umbætur í skólastarfi sem hafa augljósan tilgang og verði öðrum fyrirmynd.

Víðsýni og gæfa til þess að sjá fjársjóðinn sem felst í fjölbreytileikanum, draga fram sérkenni samfélagsins og hjálpast að við að skilja heiminn með augum hvers annars. Þörfum allra sé mætt og fundnar leiðir til þess að allir hafi aðgang að námi við hæfi og áskorunum sem jafna tækifæri nemenda.

Samvinna er augljós og sjálfsögð, á milli stofnana, atvinnulífs og skóla. Tilgangurinn er að læra af hvert öðru og nýta tækifærin í umhverfi skólanna til að auðga starfið með börnunum. Þarfir einstaklinganna hafðar að leiðarljósi.

Árangur í námi og áhersla á framfarir. Samvinna við foreldra og lýðræðisleg aðkoma nemenda að skólastarfinu eykur árangur.

Innleiðing

Innleiðing skólastefnu Bolungarvíkur er bundin í 3 ára aðgerðaáætlun. Hver skóli vinnur sína áætlun út frá stefnu sveitarfélagsins. Skólarnir setja sér gæðaviðmið um starfsemi skólanna og gæta þess að áherslur sveitarfélagins og menntastefnu ríkisins birtist í starfsháttum þeirra. Reglubundið innra mat og stöðugar umbætur tryggja að skólasamfélagið allt geti fylgst með og stutt við hvernig gengur að uppfylla kröfur um gæða skólastarf.

Samþykkt 03. júní 2020