Ágrip af sögu skólans

Í Bolungarvík mun almenn barnakennsla hafa byrjað um 1880. Fyrsti og eini kennarinn við skólann fyrstu þrjú árin var Sigurður Pálsson. Árið 1891 var keypt nýlegt timburhús á Grundum fyrir skólahús, sem seinna var kallað „Gamli Skólinn“. Kennt var þar fram til 1902 en það ár var flutt í nýtt skólahús að Skólastíg sem nú er tónlistarskóli. Árið 1912 var Sveinn Halldórsson ráðin kennari við barnaskólann. Var hann kennari fyrstu fjögur árin en síðan skólastjóri í 27 ár samfleytt.

Tímamót verða í skólasögu Bolungarvíkur árið 1928 með stofnum unglingaskóla. Fyrsti skólastjóri unglingaskólans var Steinn Emilsson, jarðfræðingur. Var hann skólastjóri unglingaskólans 1928-31 og 1933-53 (og jafnframt skólastjóri barnaskólans 1947-53). Steinn var brautryðjandi í unglingafræðslu og gagnmerkur skólamaður. Skólinn var stækkaður 1944 og var kennt í þessu húsnæði allt fram til 1966 að nýtt skólahúsnæði var tekið í notkun við Höfðastíg.

Með fjölgun íbúa í Bolungarvík þrengdi verulega að kennslu í skólahúsnæðinu og fór hluti af verkgreinakennslunni fram í öðru húsnæði í bænum (Þróttarhúsinu). Því var brýnt að byggja við skólahúsnæðið. Hafist var handa við að byggja við 1986 og var viðbyggingin tekin í notkun 1990 var þá öll kennsla í sama húsnæðinu. Haustið 1992 var bæjar- og skólabókasafnið sameinað og var til húsa á neðri hæð „nýja skólans“. Um þessar mundir (haust 2019) er verið að rjúfa þessa sameiningu og flytja útlán í „Bókakaffið“.

Fjölmargir kennarar sem starfað hafa lengi við skólann en enginn kennari mun þó hafa starfað jafnlengi við kennslu í Bolungarvík og Helga Svana Ólafsdóttir, hún hóf störf 1947 og kenndi fram undir aldamótin 2000.

Sundlaug og íþróttahús risu í næsta nágrenni við skólann og var sundlaugin vígð í janúar 1977 og íþrótthúsið tekið í notkun í janúar 1984. Veturinn 2014 – 2015 var unnið að því að gera gang á milli skólans og íþróttamiðstöðvar þannig að nú þurfa nemendur ekki að fara út úr húsi til að stunda íþróttir og sund.

Frá 2005 hefur mötuneyti verið starfrækt í skólanum, fyrst var matreitt í félagsheimilinu en síðar var útbúið mötuneyti í skólahúsnæðinu, þar sem allir nemendur og starfsmenn geta keypt mat í hádeginu, að auki er hafragrautur í boði á morgnana og ávaxtabiti nemendum að kostnaðarlausu.

Skólastjórar:

Páll Sigurðarsson: 1909-1910/-1916

Sveinn Halldórsson1916 -1943

Sæmundur Ólafsson 1943?-1945?

Gunnlaugur Sveinsson 1946?-1947?

Steinn Emilsson: 1947 – 1953 (skólastjóri unglingaskólans: 1928-31 og 1933-53)

Sigurjón Jóhannesson: 1953-57

Björn Jóhannesson: 1957-63

Gunnar Ragnarsson: 1963 – 1991

Guðmundur Rúnar Vífilsson: 1991 – 1996

Anna G. Edvaldsdóttir: 1996 – 2004 (námsleyfi 2000 – 2001)

Halldóra Kristjánsdóttir: 2000 – 2001

Kristín Ósk Jónasdóttir: 2004 – 2006

Soffía Vagnsdóttir: 2006 – 2014 (námsleyfi 2012 – 2013)

Steinunn Guðmundsdóttir: 2012 – 2013 og 2014-2015

Stefanía Helga Ásmundsdóttir: 2015 – 2019

Halldóra Dagný Sveinbjörnsdóttir: 2019 - 

Yfirfarið september 2022